Íslendingar fæðast stórskuldugir

10/ 04/ 2013

Vefsíðan Ríkið.is var opnuð í dag en megintilgangur hennar er að vekja athygli á skuldastöðu ríkissjóðs og hvernig hún leggst einna þyngst á yngstu kynslóðir landsins.

Á vefnum er að finna reiknivél þar sem gestir síðunnar geta stimplað inn helstu þætti um eigin fjárhag, svo sem mánaðarlaun og helstu neyslustærðir. Út frá því er sá tími reiknaður sem launamaðurinn vinnur að meðaltali fyrir ríki og sveitarfélög á ári.

Reiknivélin sýnir einnig hlutdeild launamannsins í heildarskuldum hins opinbera en hún er mismikil eftir aldri. Því yngri sem einstaklingur er, þeim mun meiri er byrðin, enda á viðkomandi lengra eftir af starfsævi sinni.

Ríki og sveitarfélög skulda yfir 2000 milljarða en vaxtagreiðslur skipta tugum milljarða ár hvert. Skuldirnar eru svo til ósjálfbærar en ljóst er að þær þarf að greiða með einum eða öðrum hætti.